
Mat á skólastarfi
Mat á skólastarfi
Stjórnendur í samráði við starfsmenn leggja mat á árangur út frá stefnu og áherslum í skólastarfinu og vinna umbótaáætlun í lok skólaárs. Matsteymi er skipað skólastjóra og starfsmönnum sem sitja í þróunar- og matsteymi. Unnið var ytra mat á skólastarfi Flóaskóla á vegum Menntamálastofnunar. Í kjölfar þess var unnin umbótaáætlun til að efla skólastarfið. Lokaskýrslu var skilað til MMS vorið 2024.
Innra mat Flóaskóla er unnið út frá eftirfarandi þáttum:
Skólapúlsinn: Um er að ræða rafræna könnun sem unnin er af Skólapúlsinum. Könnun er lögð fyrir nemendur í októbermánuði ár hvert. Könnun er lögð fyrir foreldra/forráðamenn og starfsmenn í febrúar annað hvert ár.
Lesferill: Niðurstöður lesferils eru nýttar til að meta stöðu nemenda í lestri og á grundvelli þeirra eru sett markmið og áætlanir um hvar og hvernig megi efla og bæta lestrarþjálfun. Auk þess eru niðurstöður nýttar til að koma til móts við ólíkar þarfir nemenda.
Mat á námi og kennslu: Notað verður jafningjamat þar sem tveir og tveir kennarar munu sitja kennslustundir hvor hjá öðrum og leggja mat á skilgreinda þætti. Jafnframt sinna kennarar sjálfsmati á sömu þáttum þess á milli. Á grundvelli þessa mats skila kennarar tillögum til matsteymis að umbótaverkefnum næsta skólaár. Stjórnendateymi skólans heimsækir kennslustundir og metur skipulag og gæði kennslu. Miðað er við 1 – 2 heimsóknir á skólaárinu.
Fagleg umræða: Skólastarfið er reglulega rætt og metið á kennarafundum, fagfundum og sérstökum rýnifundum skólastjóra og fulltrúa starfsmanna. Áhersla er lögð á að leita uppi styrkleika og sóknarfæri til að efla skólastarfið.
Starfsmannasamtöl: Mat lagt á viðfangsefni og líðan starfsmanna, aðbúnað á vinnustað og þörf fyrir fræðslu og/eða þjálfun.