Síðastliðinn laugardag fór hópur nemenda úr 6.-9. bekk til Reykjavíkur til að spila á tónleikum í Eldborgarsal í Hörpu. Þar spiluðu nemendur á heimasmíðuð langspil og sungu ásamt Eyjólfi Eyjólfssyni og Ragnheiði Gröndal. Tónleikarnir voru hluti af barnamenningaratriði lokadags Óperudaga. Óperudagar er hátíð og vettvangur klassískra söngvara og þeirra samstarfsfólks sem vilja í sameiningu efla og styrkja óperu-, söng- og tónlistarleikhússenuna á Íslandi. Markmið hátíðarinnar var m.a. að standa fyrir vönduðum og fjölbreyttum viðburðum á ólíkum stöðum, stuðla að nýsköpun og tilraunum. Lögð var áhersla á samstarf, samvinnu og samfélagslegan fókus. Langspilsverkefnið í Flóaskóla hófst veturinn 2018-2019 og var hluti af meistaraverkefni Eyjólfs í þjóðfræði við Háskóla Íslands. Verkefnið hefur sprottið og hafa fjórir árgangar við skólann smíðað langspil ásamt Eyjólfi og nú síðast í samstarfi við Fab Lab á Selfossi. Fab Lab- langspilið tvinnar saman baðstofumenningu gamla bændasamfélagsins og nýjustu tækni á sviði stafrænnar framleiðslu. Tónleikarnir gengu mjög vel og voru nemendur sælir með tækifærið að fá að stíga á stokk með hljóðfærin sín á stóra sviðinu í Hörpu.
Hér má sjá nánari umfjöllun um Langspilsverkefnið í Landanum síðan 2021.
Comments